Innlent

Ríkisstjórnin vissi af svartri skýrslu um Byrgið

Ríkisstjórnin vissi af svartri skýrslu um fjármál Byrgisins fyrir röskum fjórum árum. Þetta fullyrðir Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar.

Í pistli á heimasíðu sinni segir Jóhanna Sigurðardóttir að á árinu 2002 hafi minnisblað verið lagt fyrir ríkisstjórn í framhaldi af tillögum aðstoðarmanna þriggja ráðherra. Þar hafi komið skýrt fram að fjármálastjórn Byrgisins væri í molum, skammtímaskuldir miklar og bókhaldsóreiða. Jóhanna segir þar að með ólíkindum sé að þrátt fyrir þessa kolsvörtu skýrslu hafi ríkisstjórn smám saman hækkað framlög til Byrgisins en þau voru komin upp í rúmlega 28 milljónir á síðasta ári.

Þá skrifar Jóhanna að fram hafi komið á fundi fjárlaga- og félagsmálanefndar að allar götur frá árinu 2002 hafi það verið ríkisstjórnin en ekki fjárlaganefnd sem ákvað framlög til Byrgisins. Á öllum siðmenntuðum þjóðþingum hefði farið fram rannsókn, segir Jóhanna, á því hvaða aðilar bera ábyrgð á þeirri óreiðu og fjármálasukki sem viðgengist hefur í mörg ár á Byrginu. Hvar hefði það geta gerst nema á Íslandi að enginn beri ábyrgð þótt misfarið hafi verið með almannafé og allt eftirlit brugðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×