Erlent

Óskarstilnefningar tilkynntar í dag

Óskarsstyttan.
Óskarsstyttan.
Tilnefningar til Óskarsverðlauna verða tilkynntar eftir hádegi í dag í Los Angeles. Veðbankar og spámenn keppast við að segja fyrir um hverjir komast í hinn eftirsótta hóp tilnefndra. Öruggast þykir að veðja á Drottninguna, Helen Mirren hefur þegar fengið Golden Globe verðlaunin fyrir túlkun sína á Elísabetu annarri drottningu.

Fleiri breskar konur gætu blandað sér í toppbaráttuna, Judi Dench (Notes on a Scandal) og Kate Winslet (Little Children) þykja koma sterklega til greina. Einnig hefur verið veðjað á Meryl Streep (The Devil Wears Prada), Toni Colette (Little Miss Sunshine) og Penelope Cruz (Volver).

Forest Whitaker þykir líklegastur til að fá verðlaun fyrir besta aðalhlutverk karla fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin (The last King of Scotland). Leonardo Dicaprio þykir eiga möguleika á tilnefningu fyrir aðalhlutverkið í Blood Diamonds og reyndar líka aukahlutverk í The Departed. Þá heyrist nafn æringjans Sacha Barons Cohens nefnt enda eftirminnileg túlkun hans á Borat.

Þær myndir sem þykja sigurstranglegastar eru The Queen, The Last King of Scotland, Bobby, Little Miss Sunshine, The Departed og United 93.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×