Erlent

Hillary Clinton vinsælust frambjóðenda

Hillary Clinton, fyrrum forsetafrú, er með umtalsvert forskot á keppinauta sína í keppninni um útnefningu forsetaframbjóðanda demókrataflokksins til forsetakosninganna 2008. Hillary tilkynnti formlega um framboð sitt í dag. Í könnun Washington Post og ABC News, sem birt var í dag er Hillary með 41% fylgi, Barack Obama með 17% og John Edwards með 11%. Al Gore, fyrrverandi varaforseti fékk aðeins 10 prósenta fylgi við útnefningu flokksins og frambjóðandi flokksins gegn George W. Bush í kosningunum 2004, John Kerry fékk 8% stuðning. Þetta er mjög svipuð niðurstaða og í hliðtæðri könnun í desember.

Hjá Repúblíkönum er Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York með forystu, 34% en sá eini sem veitt gæti honum keppni, að svo stöddu er John McCain sem fær 27% stuðning sem forsetaefni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×