Fótbolti

Beckham verður með 1,5 milljón á tímann hjá LA Galaxy

Beckham á æfingu í með félögum sínum í Madrid í morgun, þeim Robinho (t.v.) og Gago. Beckham endurheimtir treyju nr 7 hjá LA Galaxy.
Beckham á æfingu í með félögum sínum í Madrid í morgun, þeim Robinho (t.v.) og Gago. Beckham endurheimtir treyju nr 7 hjá LA Galaxy. MYND/AP

Beckham hjónin David og Victoria ættu að geta að haft það sæmilegt í Los Angeles næstu fimm árin því að David á von á launahækkun. Samningur Beckhams við LA Galaxy hljóðar upp á fimm sinnum hærri laun en hann hefur haft hjá Real Madrid.

Samningurinn, sem er til fimm ára, hljóðar upp á 18 milljarða króna. Þetta þýðir að mánaðarlaun hans hjá LA Galaxy verða 300 milljónir króna og tímakaupið því 1,5 milljón króna. Þá er miðað við venjulega 40 stunda vinnuviku og að ekki sé greitt sérstaklega fyrir vinnu um helgar.

Mestur hluti launapakkans felst í árangurstengdum bónusum, og hlutdeild hans í tekjum af seldum verslunarvarningi og miðasölu á nýjum leikvangi LA Galaxy í Carson City í Kaliforníu, sem tekur 27.000 manns í sæti. Sjálf föstu launin nema aðeins um 3,6 milljörðum króna á þessu fimm ára tímabili.

En þessir 18 milljarðar eru samt bara dagvinnutekjurnar. Þar fyrir utan heldur Beckham áfram að hafa tekjur af auglýsingasamningum sínum við Adidas, Gillette, Motorola og Pepsi, sem metnar eru á um 2,4 milljarða á ári, eða 12 milljarða króna í viðbót á þessu fimm ára tímabili. Árstekjurnar eru því amk sex milljarðar og mánaðarlaunin 500 milljónir. En þessu til viðbótar má gera ráð fyrir því að fleiri fyrirtæki vilji nú njóta auglýsingakrafta Beckhams eftir að hann verður áberandi á Bandaríkjamarkaði.

Fjármálasérfræðingar hafa því verið að gera því skóna, að sögn Daily Mirror, að árstekjur Beckhams gætu farið upp í sem svarar 7 milljörðum króna og að hann yrði þarmeð tekjuhæsti íþróttamaður heims. Golfstjarnan Tiger Woods hefur þann titil nú, en árstekjur hans eru metnar á um 6,7 millljarða króna.

Viðræðurnar um samning Bechams hafa staðið í nokkrar vikur milli fyrirtækisins AEG, eiganda LA Galaxy, og 19 Management, sem semur fyrir hönd Beckhams. AEG (ekki þýski þvottavélaframleiðandinn) stendur meðal annars á bakvið uppbyggingu Þúsaldarhvelfingarinnar (Millenium Dome) í London.

Simon Fuller, forstjóri 19 Management og maðurinn á bakvið m.a. Spice Girls og Idol stjörnuleitarþættina, segir að koma Backhams til Ameríku eigi eftir að hækka sess knattspyrnunnar þar, og að enginn sé betri sendiherra íþróttarinnar en David Beckham.

Beckham er sagður feginn því að fá aftur treyju númer 7 hjá LA Galaxy, sem er sama númer og hann hafði hjá Manchester United. Hjá Real Madrid var hann númer 23 vegna þess að þar var fyrir Figo í 7-treyjunni.

TEKJUHÆSTU ÍÞRÓTTAMENNIRNIR 2006 (í milljörðum króna)

Tiger Woods 6,7 .

Michael Schumacher 4,2

Muhammad Ali 3,9

Phil Mickelson 3,4

Michael Jordan 2,4

Kobe Bryant 2,2

Shaquille O'Neal 2,1

Valentino Rossi 2

Alex Rodriguez 1,9

David Beckham 1,8




Fleiri fréttir

Sjá meira


×