Innlent

Segja formann leikskólaráðs slá ryki í augu fólks

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, og samstarfsfólk hans hjá Kennarasambandinu vilja að sveitarfélögin hysji upp brækurnar í launamálum kennara.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, og samstarfsfólk hans hjá Kennarasambandinu vilja að sveitarfélögin hysji upp brækurnar í launamálum kennara. MYND/Rósa

Stjórn Kennarasambands Íslands skorar á sveitarstjórnarmenn að grípa nú þegar til úrræða sem duga til þess að leysa mannekluna á leik- og grunnskólum og greiða þau laun sem nauðynleg eru til að tryggja stöðugleika í skólastarfi. Sakar sambandið formann leikskólaráðs borgarinnar um að slá ryki augu fólks.

Í ályktun frá Kennarasambandinu lýsir það yfir miklum áhyggjum af ástandinu þar sem fjölmargar stöður séu ómannaðar og álag á starfsfólki langt umfram það sem eðlilegt megi telja.

Bent er á að sveitarstjórnarmenn geti nýtt sér ákvæði kjarasamninga til að greiða hærri laun en lágmark kjarasamninga kveði á um. Þá lýsir stjórn KÍ furðu sinni á ummælum Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs Reykjavíkurborgar, um að kenna megi því sem formaðurinn kallar jafnlaunastefnu KÍ um erfiðleika við mönnun skóla. Það sé ekkert í kjarastefnu KÍ sem standi í vegi fyrir því að greiða megi hærri laun en kjarasamningar kveða á um.

Lausnin í höndum sveitarfélaganna

Hvetur stjórnin borgarstjórn Reykjavíkur og aðrar sveitarstjórnir til þess að koma á stöðugleika í skólastarfi með því að greiða þau laun sem nauðsynleg séu. „Það að slá ryki í augu almennings eins og formaður Leikskólaráðs Reykjavíkurborgar hefur gripið til getur aldrei leitt til farsællar lausnar á þeim vanda sem við blasir. Sá vandi verður aðeins leystur með því að skólarnir verði samkeppnishæfir hvað varðar laun og önnur starfskjör. Lausnin er í höndum rekstraraðilanna - sveitarfélaganna í landinu," segir að endingu í ályktun KÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×