Innlent

Gagnagrunnar hafi lagastoð og lúti eftirliti

MYND/Pjetur

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafnar því að ekki sé heimild fyrir þeim gagnagrunnum sem greiningardeild embættisins hefur yfir að ráða. Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu vegna forsíðufréttar í Fréttablaðinu í gær kemur fram að fyrir hendi sé sérstök reglugerð um meðferð persónupplýsinga hjá lögreglu.

Reglugerðin sé sett með skýrri lagastoð í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, lögreglulaga og laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það sé því skýr lagaheimild fyrir starfrækslu gagnagrunna lögreglu, þar með talið greiningardeildar embættis Ríkislögreglustjóra.

Þá er bent á að Ríkislögreglustjóri hafi í áraraðir rekið miðlæga gagnagrunna samkvæmt lögum þar um, þar á meðal gagnagrunna um kærur, dagbók lögreglu og gagnagrunn þar sem skráðar eru upplýsingar um einstaklinga, hópa, félög, fyrirtæki eða annað sem tengist meðal annars fíkniefnum, barnaklámi og hryðjuverkum. Allir gagnagrunnar ríkislögreglustjóra séu undir eftirliti Persónuverndar og á þá hafi reynt fyrir dómstólum.

Þá segir ráðuneytið að með reglugerð um greiningardeild hafi ekki verið vikið frá ofangreindum heimildum heldur kveðið á um skipulagsleg atriði og starfsemi greiningardeildarinnar. Greiningardeildin byggi á sömu heimildum og sé háð sömu takmörkunum sem gildi almennt um meðferð og söfnun persónuupplýsinga hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×