Erlent

Bresk hjón fengu 11 milljón króna símreikning

MYND/Getty Images

Breskum hjónum brá heldur betur í brún þegar símreikningur upp á 11 milljónir íslenskra króna datt inn um lúguna hjá þeim. Dawn og Tyrone Chadwich búa í bænum Gronant skammt frá Liverpool. Þegar Dawn opnaði reikninginn kom í ljós að sjö mínútna símtal til Chester, sem er rúmlega fimmtíu kílómetra í burtu, kostaði níu og hálfa milljón fyrir utan virðisaukaskatt.

Dawn er 37 ára og fimm barna móðir. Hún segir að hún hafi orðið skelfingu lostin. Maðurinn minn fékk hjartaáfall rétt eftir jól. Ef hann hefði opnað umslagið hefði hann fengið annað.

Eftir áfallið hringdi frú Chadwick í BT símafyrirtækið. Fyrst sögðu þeir að reikningurinn væri réttur. Síðan sögðu þeir að þeir héldu að þetta væru mistök og myndu kanna málið.

Þessi reikningur var meira en fáránlegur. Venjulegur símreikningur hjá okkur er 4.500 krónur á mánuði.

BT hefur beðist afsökunar á þessum gífurlega símreikning og segir tölvubilun um að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×