Erlent

Sendifulltrúi SÞ í Mjanmar

Guðjón Helgason skrifar

Sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna er kominn til Mjanmar til að ræða við herforingjastjórnina þar um ástandið í landinu. Mótmæli gegn herforingjunum héldu þar áfram í morgun.

Í dögun var allt með kyrrum kjörum í Jangon, stærstu borg Mjanmar, þar sem mótmælendur hafa látið í sér heyra síðustu daga. Frá því á miðvikudaginn hafa her- og lögreglumenn barið á þeim og beitt hörku til að dreifa mannfjöldanum sem safnast hefur saman. Búddamunkar hafa leitt mótmælin. Margir þeirra hafa verið handteknir eða lokaðir inni í klaustrum og því hefur fækkað úr þeirra hópi í aðgerðunum.

Í morgun voru her- og lögreglumenn á hverju götuhorni í Jangon og borginni Mandalay í Mjanmar. Nokkur hundruð mótmælendur lögðu þó í aðgerðir í Jangon í morgun og hafa gengið þar um og látið í sér heyra. Hermenn hafa enn sem komið er ekki lagt til atlögu gegn þeim af fullum krafti - þó vitni segi að á stökum stað hafi verið gripið til ofbeldis.

Það var svo í morgun sem Ibrahim Gambari, sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna, kom til Myanmar. Hann mun ræða við fulltrúa herforingjastjórnarinnar og greina þeim frá áhyggjum alþjóðasamfélagsins af ástandinu. Gambari mun hvetja þá til að setjast niður til viðræðna við fulltrúa mótmælenda.


Tengdar fréttir

Þögult á götum Mjanmar

Þögult var á götum Mjanmar í morgun. Þar hefur komið til blóðugra átaka síðustu daga vegna mótmæla gegn herforingjastjórn landsins. Her- og lögreglumenn hafa tekið hart á mótmælendum síðustu þrjá daga. Ekki er vitað með vissu hve margir hafa fallið í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×