Erlent

Vill að Ólympíuleikarnir verði notaðir gegn Kína

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
McMillan vill að Gordon Brown forsætisráðherra Breta beiti sér í málinu.
McMillan vill að Gordon Brown forsætisráðherra Breta beiti sér í málinu.

Lönd Evrópusambandsins ættu að sniðganga ólympíuleikana í Peking árið 2008 ef Kína grípur ekki í taumana gegn ástandinu í Mjanmar. Þetta er álit Edward McMillan-Scott aðstoðarforstjóra Evrópuþingsins.

Hann mun fara fram á það við Gordon Brown forsætisráðherra Breta og Manuel Barruso forseta sambandsins að rætt verði hvort evrópskir íþróttamenn ættu að andmæla leikunum með þessum hætti.

McMillan er breskur og nýtur stuðnings hóps stjórnmálamanna innan sambandsins frá Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Hann segir Kína gegna lykilhlutverki í fyrrum Burma og Ólympíuleikarnir séu eina raunhæfa tækið sem alheimurinn hefur til að þrýsta á að þarlend stjórnvöld aðhafist í málinu.

„Hinn siðmenntaði heimur verður að skoða alvarlega þennan möguleika til að senda skýr skilaboð um að slík mannréttindabrot eru ekki ásættanleg," sagði hann.

Graham Watson leiðtogi frjálslyndra og demókrata tók í sama streng og sagði Evrópusambandið verða að þrýsta á samstilltar aðgerðir aðildarlandanna eða senda skilaboð í gegnum allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til Kína og viðskiptalanda þess í Asíu vegna Mjanmar.

„Við höfum alltof lengi litið framhjá ástandinu og leyft ólöglegri herstjórn sem kúgar landa sína að starfa óáreittri."

Stjórnvöld í Kína lýstu því yfir í fyrsta sinn á fimmtudag að herstjórnin þyrfti að sýna stillingu. Þrátt fyrir það eru þau á móti tillögum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um viðskiptaþvinganir gegn herstjórninni í landinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×