Fótbolti

Blatter: Ekki einblína á krikket

NordicPhotos/GettyImages

Sepp Blatter, forseti Alþjóða Knattspyrnusambandsins, er nú í þriggja daga heimsókn á Indlandi þar sem hann er að kynna knattspyrnuna fyrir krikket-sinnuðum heimamönnum. Hann skorar á þessa næst fjölmennustu þjóð heims að beina sjónum sínum í auknum mæli að knattspyrnu.

Blatter hefur meðal annars átt fund með forsætisráðherra landsins, Manmohan Singh, á ferð sinni um landið. Hann skorar á Indverja að koma fótboltanum betur á kortið í landinu, en þó yfir milljarður manns búi á Indlandi, er knattspyrnulandsliðið aðeins í 165 sæti FIFA-listans og metið sem 34. sterkasta landslið Asíu.

"Ég hef miklar mætur á leiknum sem kallaður er krikket og ég er ekki hérna til að reyna að grafa undan rótgrónustu íþróttagrein í landinu. Ég reyni hinsvegar alltaf að minna fólk á það að knattspyrnan er leikur sem tekur ekkert tillit til þjóðfélagslegrar stöðu iðkenda, fjárhagsstöðu eða kynþáttar," sagði Blatter og vitnaði í heimspekinga þegar hann var spurður hvernig koma ætti knattspyrnunni betur að í landinu.

"Eins og Konfúsíus sagði - Ef bróðir þinn vill fisk - ekki gefa honum fisk. Kenndu honum heldur að veiða," sagði Blatter og kallaði Indland sofandi risa í heimsknattspyrnunni. Hann segir að gríðarlegt starf þurfi að koma til í landinu áður en til greina komi að halda þar stórmót í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×