Enski boltinn

Unglingarnir í Arsenal áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eduardo da Silva skoraði tvö mörk í kvöld.
Eduardo da Silva skoraði tvö mörk í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal vann sér í kvöld sæti í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar eftir 3-2 sigur á Blackburn í framlengdum leik á Ewood Park í kvöld.

Eins og alltaf stillti Arsene Wenger, stjóri Arsenal, upp mjög ungu liði í kvöld enda þar að auki aðeins tveir dagar síðan liðið lék gegn Chelsea í deildinni. Enginn byrjunarliðsmannanna gegn Chelsea var í byrjunarliðinu í kvöld.

Fyrsta markið kom snemma í leiknum og var Abou Diaby þar að verki fyrir gestina ungu frá Arsenal. Hann skoraði eftir fyrirgjöf Nicklas Bendtner.

Eduardo da Silva bætti svo við öðru marki eftir um hálftímaleik eftir hræðileg mistök Christopher Samba í vörn Blackburn.

Skömmu fyrir leikhlé náði hins vegar Roque Santa Cruz að jafna metin af stuttu færi eftir fyrirgjöf Matt Derbyshire.

Santa Cruz var svo aftur að verki um miðbik síðari hálfleiks er Blackburn náði að jafna metin. David Bentley tók aukaspyrnu inn á vítateig Arsenal og skallaði Santa Cruz knöttinn í netið.

Til að bæta gráu á svart missti Arsenal mann af velli þegar Denilson fékk beint rautt spjald fyrir að brjóta á David Dunn. Litlu mátti muna að leikmenn misstu stjórn á skapi sínu í kjölfarið en leikurinn hélt áfram og lauk venjulegum leiktíma með 2-2 jafntefli.

Arsenal skoraði eina markið í framlengingunni þrátt fyrir að vera manni færri. Da Silva var þar aftur af verki eftir stungusendingu Alexandre Song.

Þrátt fyrir spennandi lokamínútur tókst Blackburn ekki að jafna metin öðru sinni og urðu því að játa sig sigraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×