Innlent

Kompásþátturinn stendur fyrir sínu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Kompáss.
Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Kompáss.
Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóri Kompás segir að Kompásþátturinn standi fyllilega fyrir sínu þrátt fyrir sýknu Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Héraðsdómur sýknaði þrjá karlmenn af ákærum um tilraun til kynferðisbrota. Ákæran var byggð á tálbeitugögnum frá sjónvarpsþættinum Kompás.

Jóhannes segir að ritstjórn þáttarins starfi ekki eins og lögregla. „En þegar lögreglan hafði samband við ritstjórn og óskaði eftir gögnum varðandi mennina og vísaði til ríkra almannahagsmuna sá ritstjórn ekki færi á öðru en að verða við því," segir Jóhannes. Hann segir að einu gögnin sem lögreglan hafi fengið í hendurnar hafi verið myndir af mönnunum og gögn sem birtust á heimasvæði þáttarins á Netinu. Óbirt rannsóknargögn hafi ekki verið látin lögreglu í té.

Þá segir Jóhannes það alveg ljóst að allir þeir sem fjallað var um í Kompásþættinum hafi komið á vettvang þáttarins til þess að hitta stúlku sem sagðist vera þrettán ára gömul í kynferðislegum tilgangi. Þeir hafi ekki geta vitað að um 28 ára gamla konu var að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×