Erlent

Aukin pólitísk völd Hu eftir flokksþing

Forysta Kommúnistaflokksins reis úr sætum þegar alþjóðasöngur verkalýðsins var sunginn á lokadegi flokksþingsins í gær.
nordicphotos/afp
Forysta Kommúnistaflokksins reis úr sætum þegar alþjóðasöngur verkalýðsins var sunginn á lokadegi flokksþingsins í gær. nordicphotos/afp
kína, ap Forseti Kína, Hu Jintao, hefur seinna fimm ára kjörtímabil sitt með aukin pólitísk völd að loknu flokksþingi Kommúnistaflokksins í Kína. Hann hefur nú frjálsari hendur til að fást við vaxandi spennu vegna launamunar og til að auka fjárframlög til vanræktrar félagsþjónustu.

Níu manna framkvæmdastjórn Kommúnistaflokksins var skipuð á flokksþinginu og munu fjórir nýir menn taka sæti í stjórninni. Þykir sumum það áhyggjuefni að tveir mögulegir eftirmenn Hu í embætti forseta, Li Keqiang og Xi Jinping, voru skipaðir í framkvæmdastjórnina þar sem það geti leitt til innri ágreinings í flokknum. Það hefur ítrekað gerst í sögu flokksins þrátt fyrir þá miklu áherslu sem þar er lögð á einingu.

Xi, flokksleiðtogi frá Sjanghæ og sonur virts byltingarleiðtoga, hefur markað sér stöðu sem valkostur fyrir þá valdamenn í Kommúnistaflokknum sem vilja ekki gefa Hu of mikil völd. Li, flokksleiðtogi úr norðaustur­héraðinu Liaoning, er skjólstæðingur Hu og þykir forsetinn hafa sýnt stuðning sinn við hann. Xi fékk þó valdameiri stöðu innan framkvæmdastjórnarinnar en Li, sem þykir gefa honum meiri möguleika á að taka við af Hu eftir að seinna kjörtímabili hans lýkur eftir fimm ár.

- sdg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×