Innlent

Fjöldi fyrrum skjólstæðinga á götunni

Vistmenn á vergangi. Skjólstæðingar Byrgisins sem komnir eru á götuna eftir að því var lokað hafa leitað skjóls hjá Geðhjálp, að sögn framkvæmdastjóra samtakanna. Sama máli gegnir um menn sem dvöldu á drengjaheimilinu í Breiðuvík.
Vistmenn á vergangi. Skjólstæðingar Byrgisins sem komnir eru á götuna eftir að því var lokað hafa leitað skjóls hjá Geðhjálp, að sögn framkvæmdastjóra samtakanna. Sama máli gegnir um menn sem dvöldu á drengjaheimilinu í Breiðuvík. MYND/Róbert

Fjöldamargir þeirra sem dvöldu á Breiðavík og í Byrginu hafa leitað til Geðhjálpar af því að þeir eru á götunni, að sögn Sveins Magnússonar, framkvæmdastjóra samtakanna.

Stjórn Geðhjálpar hefur ritað ríkisstjórninni bréf, þar sem segir það hafa komið í ljós að þjónusta geðteymis á geðsviði Landspítala hafi aðeins nýst hluta þess fólks sem orðið hafi illa úti eftir dvöl sína í Byrginu og á drengjaheimilinu á Breiðavík.

Til Geðhjálpar hafi þannig leitað einstaklingar sem segjast hafa mátt sæta harðræði, ofbeldi og kynferðislegri misnotkun á meðan stofnanavistun þeirra á ábyrgð hins opinbera stóð. Geðhjálp geri alvarlegar athugasemdir við framkvæmd þeirrar þjónustu sem boðið sé upp á og telur að samhæfa hefði þurft mun betur aðgerðir af hálfu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis frá byrjun. Einnig lýsir Geðhjálp því sjónarmiði sínu að rétt sé við þessar aðstæður, að hið opinbera hafi frumkvæði að því að hafa milliliðalaust samband við fórnarlömb hins meinta ofbeldis í stað þess að beina fólki á geðsvið LSH. Geðhjálp minnir á að íslenska ríkið skuldi því fólki sem þarna á í hlut, hvar sem það er á landinu, allan þann faglega stuðning sem best getur nýst og völ er á í landinu.

„Hingað hafa leitað einstaklingar sem komnir eru á götuna, fyrst og fremst vegna lokunar Byrgisins. Sumir eru í neyslu og hvergi staðsettir í hús,“ segir Sveinn. „Síðan eru skjólstæðingar sem vistaðir voru í Breiðavík. Stór hluti þeirra er þetta ógæfusama óreglufólk sem mælir hér göturnar.“

Sveinn bendir á að yfirvöld heilbrigðis- og félagsmála bjóði þetta fólk velkomið inn á geðdeild Landspítala. Sumum sem hafi haft dug í sér til að fara þangað hafi verið úthýst. „Hinu opinbera, sem er með gagnagrunn um hverjir þessir einstaklingar eru, ber að hafa frumkvæði að því að kalla þá til, þar sem þeir fái heildstætt mat og viðeigandi aðstoð í samræmi við það. Það þarf að taka mun heildstæðar á þessu máli heldur en nú er gert.“

„Öllum fyrrverandi vistmönnum Breiðavíkur sem leitað hafa til geðsviðs LSH hefur staðið til boða sálfræðiaðstoð,“ segir í yfirlýsingu frá LSH og jafnframt að bráðaþarfir allra fyrrverandi vistmanna Byrgisins sem leita til geðsviðs séu metnar og við þeim brugðist eins vel og hægt sé.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×