Erlent

Íslamistaleiðtogi gefur sig fram

Sheikh Sharif Sheikh Ahmed Gaf sig fram eftir að hann yfirgaf Sómalíu af ótta við hermenn Eþíópíu og Sómalíu sem eltust við liðsmenn íslamista.
Sheikh Sharif Sheikh Ahmed Gaf sig fram eftir að hann yfirgaf Sómalíu af ótta við hermenn Eþíópíu og Sómalíu sem eltust við liðsmenn íslamista. MYND/nordicphotos/afp
Einn helsti leiðtogi íslamista í Sómalíu, Sheikh Sharif Sheikh Ahmed, hefur gefið sig fram við bandarísk og kenýsk stjórnvöld og dvelur núna undir þeirra vernd í Nairobi, höfuðborg Kenýa.

Ahmed, sem telst til hófsamari leiðtoga íslamista, er talinn geta spilað lykilhlutverk í sáttaviðræðum milli íslamista og stjórnvalda í Sómalíu og með því komið í veg fyrir uppreisnarástand sem margir leiðtogar íslamista hafa hótað víða í landinu.

Stjórnarhermenn Sómalíu og Eþíópíu hröktu íslamista úr höfuðborg Sómalíu og mestum suðurhluta landsins í desember en átök hafa verið að brjótast út síðan milli ættbálka og vegna óánægju íbúa með veru Eþíópíuhers í landinu.

Stjórnvöld í Sómalíu fengu byr í seglin á laugardag þegar sá síðasti af helstu stríðsherrum Sómalíu, Mohamed Dheere, afhenti stjórnarhernum vopn sín og liðs-afla. Hótanir bárust þó samdægurs frá vígamönnum íslamista um áframhaldandi árásir þangað til ríkisstjórnin samþykkti viðræður og Eþíópíuher hyrfi úr landinu.

Ráðherraráð Evrópusambandsins hvatti í gær stjórnvöld í Sómalíu til að hefja viðræður við hópa í landinu og finna varanlega friðarlausn.

Afrísku friðargæsluliði hefur verið boðið til Sómalíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×