Erlent

Kapp lagt á sáttmálauppfærslu

Angela Merkel Vel lá á kanslaranum á blaðamannafundi í Strassborg.
Angela Merkel Vel lá á kanslaranum á blaðamannafundi í Strassborg. mynd/ap
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kynnti fyrir helgi formennskuáætlun Þjóðverja í Evrópusambandinu fyrri helming ársins. Hún sagði sambandið verða að koma sér saman um aðgerða-áætlun um það hvernig koma megi til framkvæmda þeirri uppfærslu á stofnsáttmála sambandsins sem til stóð að gera með stjórnarskrársáttmálanum svonefnda, en fullgilding hans strandaði eins og kunnugt er þegar henni var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi fyrir hálfu öðru ári.

Merkel lagði enn fremur áherslu á að samningar tækjust við Rússa um endurnýjun víðtæks viðskipta- og samstarfssamnings ESB og Rússlands og að viðræðum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum yrði bjargað út úr því öngstræti sem þær hafa festst í til þessa.

„Umhugsunartíminn er liðinn. Við verðum að komast að niðurstöðu um það fyrir júnímánuð næstkomandi hvað gera skuli við stjórnarskrársáttmálann,“ sagði kanslarinn í fyrstu ræðu sinni fyrir fulltrúum á Evrópuþinginu. Merkel bætti því við að Evrópusambandið yrði að draga úr skriffinnsku og gera ákvarðanatöku skilvirkari.

„Það er allri Evrópu í hag að ljúka þessu ferli áður en næstu kosningar til Evrópuþingsins fara fram árið 2009,“ sagði hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×