Erlent

Hert lög um innflytjendur taka gildi

Meðlimir ungliðahreyfingar hliðhollrar stjórnvöldum hrópuðu slagorð í mótmælum gegn ólöglegum innflytjendum frá fyrrum Sovétlýðveldum.
Meðlimir ungliðahreyfingar hliðhollrar stjórnvöldum hrópuðu slagorð í mótmælum gegn ólöglegum innflytjendum frá fyrrum Sovétlýðveldum. MYND/AFP

Hert lög um innflytjendur hafa nú tekið gildi í Rússlandi en talið er að á milli tíu og tólf milljónir ólöglegra innflytjenda séu í landinu. Margir hafa lýst áhyggjum yfir að þetta geti leitt til alvarlegs skorts á láglaunastarfsfólki.

Nýju reglurnar gera borgurum fyrrum Sovétlýðvelda auðveldara að fá atvinnuleyfi í Rússlandi en hækka sektir á fyrirtæki sem hafa ólöglega innflytjendur í vinnu.

Um síðustu áramót tóku gildi ný lög um að innflytjendur megi aðeins vera fjörutíu prósent vinnuafls í smásöluiðnaði, að verslunum undanskildum, og 1. apríl á þetta hlutfall að vera komið niður í núll. Beinist þetta sérstaklega gegn mörkuðum þar sem margir ólöglegir innflytjendur starfa.

Árásum og hatursglæpum vegna kynþáttafordóma og útlendingahaturs fer fjölgandi í Rússlandi og viðhorf almennings í garð innflytjenda verður æ neikvæðara. Beinist þessi óbeit sérstaklega gegn fólki sem er dökkt á brún og brá og kemur frá fyrrum Sovétlýðveldum í Kákasus og Mið-Asíu, en þaðan kemur meginþorri láglaunastarfsfólks í Rússlandi.

Stefna stjórnvalda í innflytjendamálum hefur verið gagnrýnd og telja margir að hún kyndi enn frekar undir kynþáttafordómum og útlendingahatri, leiði til verðbólgu og flýti þeirri fólksfækkun sem sé að eiga sér stað í Rússlandi. Rússum fækkar um 700.000 árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×