Erlent

Sagður vera við dauðans dyr

Ein fárra mynda sem birtar hafa verið af Kúbuleiðtoganum á sjúkrabeði, tekin í ágúst síðastliðnum.
Ein fárra mynda sem birtar hafa verið af Kúbuleiðtoganum á sjúkrabeði, tekin í ágúst síðastliðnum. MYND/AP

Fídel Castro Kúbuleiðtogi er við dauðans dyr eftir þrjár skurðaðgerðir og alvarlega iðrasýkingu. Þetta hafði fréttavefur spænska dagblaðsins El País í gær eftir ónafngreindum samstarfsmönnum spænsks skurðlæknis sem fór til Kúbu í desember til að hlynna að hinum áttræða Castro.

Kúbverskur stjórnarerindreki sagði fréttina vera „helberan uppspuna“.

Hinir ónafngreindu heimildarmenn blaðsins starfa á Gregorio Maranon-sjúkrahúsinu í Madríd, þar sem skurðlæknirinn Jose Luis Garcia Sabrido er yfirlæknir. Sabrado sjálfur lét ritara sinn skila því til fjölmiðla að hann hygðist ekki tjá sig um málið opinberlega.

Í frétt El País segir að „alvarleg garnasýking, að minnsta kosti þrjár misheppnaðar skurðaðgerðir og margvíslegar hliðarverkanir hafi leitt kúbverska einræðisherrann, Fídel Castro, að dauðans dyrum.“ Þegar Sabrado hitti Castro í desember hafi hann haft stórt sár í meltingarveginum, sem um hálfur lítri af vökva lak út um á dag, sem olli „alvarlegum næringarefnamissi“. Því væri Castro gefin næring í æð.

Erindreki í kúbverska sendiráðinu í Madríd sagði fréttina vera upplogna. „Þetta er enn ein lygin og við ætlum ekki að ræða hana. Ef einhver þarf að tala um veikindi Castros eru það ráðamenn í Havana,“ sagði hann. „Þessi frétt er helber uppspuni.“

Ráðamenn í Havana hafa gefið mjög lítið upp um mein Castros frá því hann lagðist inn á sjúkrahús í júlí og lét völdin tímabundið í hendur bróður síns, Raúls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×