Erlent

Condolezza Rice boðar til leiðtogafundar

Condoleezza Rice og Ehud Olmert. Þau  hittust í Jerúsalem í gær og ætla að hittast á leiðtogafundi með Mahmoud Abbas á næstu vikum.
Condoleezza Rice og Ehud Olmert. Þau hittust í Jerúsalem í gær og ætla að hittast á leiðtogafundi með Mahmoud Abbas á næstu vikum. MYND/AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ætlar að hitta þá Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseta Palestínustjórnar, á næstu vikum til að ræða hugmyndir um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna.

Rice er á ferð um Mið-Austurlönd þessa dagana til þess að afla stuðnings við breyttar áherslur Bandaríkjamanna í Íraksstríðinu.

Í gær hitti hún meðal annars Hosni Mubarak Egyptalandsforseta.

Bandaríkjamenn leggja sérstaka áherslu á að fá þau arabaríki þar sem súnnímúslímar eru í meirihluta í lið með sér við að stöðva vopnaða baráttu súnnía í Írak, sem framan af beindist einkum gegn bandaríska herliðinu í Írak en hefur í vaxandi mæli beinst gegn sjíum í Írak.

Leiðtogar nokkurra arabaríkja hitta Rice að máli í dag og hafa upplýst að þeir muni segja henni að þeir vilji hjálpa Bandaríkjunum við að koma á stöðugleika í Írak gegn því að Bandaríkin beiti sér af meiri alvöru að því að koma á friði milli Ísraels og nágrannaríkja þess.

Bæði ísraelskir, palestínskir og arabískir ráðamenn hafa undanfarið viðrað hugmyndir um að láta svonefnt „vegakort“, sem lýsir leiðinni í átt til friðarsamkomulags, lönd og leið og hraða þess í stað stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gazasvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×