Erlent

Næstráðendur Saddams hengdir

Myndbandsupptöku af aftökunni verður ekki dreift og er einungis ætluð til sönnunar að sögn al-Dabbagh. Fréttamönnum var sýnd upptakan í gær.
Myndbandsupptöku af aftökunni verður ekki dreift og er einungis ætluð til sönnunar að sögn al-Dabbagh. Fréttamönnum var sýnd upptakan í gær. mynd/afp

Hálfbróðir Saddams Hussein og fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu Íraks, Barzan Ibrahim, og fyrrverandi yfirdómari í Írak, Awad Hamed al-Bandar voru teknir af lífi með hengingu fyrir dögun í gær. Eftir aftökurnar greindi talsmaður stjórnvalda frá því að höfuð Ibrahims hefði losnað frá líkamanum við henginguna í því sem hann kallaði „sjaldgæft slys“.

Rúmar tvær vikur eru síðan Saddam Hussein var tekinn af lífi í umdeildri aftöku sem hefur verið gagnrýnd víða. Myndbandsupptökur af aftökunni sýna hvernig viðstaddir hæddu Hussein þar sem hann stóð með snöruna um hálsinn.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að aftaka Saddams hefði átt að vera framkvæmd með reisn og vonaði hún að þeir sem hefðu séð um framkvæmd hennar yrðu dregnir til ábyrgðar. Hún minntist ekkert á aftökur Ibrahims og al-Bandar.

Engar reglur voru brotnar við framkvæmd aftökunnar í gær að sögn talsmanns stjórnvalda, Ali al-Dabbagh. „Enginn hrópaði slagorð eða sagði neitt sem setti blett á aftökuna. Hvorugur hinna ákærðu var móðgaður.“

Ibrahim og al-Bandar voru ásamt Saddam sakfelldir fyrir morð á 148 sjíamúslímum árið 1982.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×