Erlent

Sósíalistar í Frakklandi hafa valið forsetaefni sitt

Segolene Royal, sem myndi verð fyrsti kvenforseti Frakklands.
Segolene Royal, sem myndi verð fyrsti kvenforseti Frakklands. MYND/AP

Samkvæmt fyrstu tölum úr prófkjöri sósíalista í Frakklandi er talið að frambjóðandinn Segolene Royal eigi eftir að bera sigur úr býtum. Þetta kom fram hjá franska sjónvarpinu LCI í kvöld. Líklegt þykir að hún hafi hlotið mikinn meirihluta atkvæðanna en úrslit ættu að verða ljós í fyrramálið. Royal myndi verða fyrsti kvenkyns forseti Frakklands ef hún ber sigur úr býtum í komandi forsetakosningum.

Royal leitaði á sögulegar slóðir þegar hún hélt sinn síðasta kosningafund í gær í borginni Nantes, en þar hélt síðasti foresti sósíalista, Francois Mitterand, sinn síðasta kosningafund áður en hann náði kjöri árið 1981. Ef Royal nær ekki helmingi atkvæða í fyrstu umferð verður önnur umferð á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fá.

Andstæðingar hennar í prófkjörinu eru fyrrum fjármálaráðherra Frakka, Dominique Strauss-Kahn, og fyrrum forsætisráðherrann Laurent Fabius en talið er að hann eigi eftir að reka lestina í prófkjörinu. Sigurvegarinn í prófkjörinu mun síðan fara í forsetakosningarnar í apríl á næsta ári og mun þar væntanlega mæta innanlandsráðherra Frakka, Nicolas Sarkozy, en hann er líklegasti frambjóðandi hægrimanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×