Innlent

Landlæknir fékk ábendingu um 3 vistkonur óléttar eftir starfsmenn í Byrginu

Svo virðist sem Landlæknisembættið hafi ekki brugðist við ábendingu um 3 vistkonur óléttar eftir starfsmenn í Byrginu.
Svo virðist sem Landlæknisembættið hafi ekki brugðist við ábendingu um 3 vistkonur óléttar eftir starfsmenn í Byrginu.

Landlæknir fékk fyrir fjórum árum ábendingu frá lækni um að þrjár konur sem voru í meðferð í Byrginu væru óléttar eftir starfsmenn þess. Svo virðist sem landlæknisembættið hafi ekkert gert við þær upplýsingar.

Eins og fram kom í fréttum Stöpvar tvö í síðustu viku herma heimildir fréttastofu að fleiri en ein kona í meðferð í Byrginu hafi orðið barnshafandi eftir starfsmenn þar. Læknir á höfuðborgarsvæðinu sendi Landlæknisembættinu bréf þann 16. janúar 2003 þar sem hann segir að sér sé sagt að þrjár konur séu óléttar í Byrginu og að barnsfeðurnir muni vera starfsmenn staðarins. Skýrt er kveðið á um það í lögum að á svona stofnunum varði það allt að fjögurra ára fangelsi ef starfsmaður hefur samræði við vistmann.

Þá tekur læknirinn einnig fram að hann hafi ítrekað heyrt frásagnir um ástarsambönd og kynferðisleg sambönd starfsmanna, bæði yfirmanna og meðferðaraðila, við sjúklinga eða vistmenn á Byrginu. Fréttastofa hafði samband við þáverandi aðstoðarlandlækni og hann rekur ekki minni til að brugðist hafi verið við þessari ábendingu. Í samtali við starfsmann landslæknisembættisins í dag var á það bent sem áður hefur komið fram að landlæknir hefur enga lögsögu yfir Byrginu enda telst það ekki heilbrigðisþjónusta. Því hafi embættið engar lagaheimildir til að kanna slíkar ábendingar sem þessar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×