Erlent

Samþykkt að beita Írana refsiaðgerðum vegna kjarnorkumála

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkkti sídegis samhljóða tillögu að ályktun um að beita Írana refsiaðgerðum vegna kjarnorkuáætlana þeirra.

Í refsiaðgerðunum felst að bannað verður að sjá Írönum fyrir tækni og efnum tengdum kjarnorkuframleiðslu auk þess sem eignir tiltekinna manna og fyrirtækja verða frystar til að koma í veg fyrir að Íranar geti orðið sér úti um efni til kjarnorkuvinnslu. Þá er þess krafist að Íranar hætti strax að auðga úran, en það má bæði nota til kjarnorkueldsneytis og í kjarnavopn.

Nokkur vafi lék á því hvort Rússar myndu styðja tillöguna, meðal annars vegna samstarfs Rússa og Írana í orkumálum, og áttu Valdímír Pútín Rússlandsforseti og George Bush Bandaríkjaforseti samtal í síma fyrr í dag vegna þess. Svo fór að lokum að Rússar studdu tillöguna eftir að henni hafði verið breytt.

Eins og kunnugt er hafa Íranar neitað því að hætta auðgun úrans eins og Vesturveldin hafa farið fram á og segja það rétt sinni sem sjálfstæðrar þjóðar að nýta kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Vesturveldin óttast hins vegar að Íranar geti komið sér upp kjarnavopnum.

Fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu varaði Írana við því í dag að ef þeir kæmu sér upp kjarnavopnum myndu öryggi þeirra ekki aukast heldur minnka. Hann sagði jafnframt að ályktunin fæli í sér skýra viðvörun til Írana um það hefði alvarlegar afleiðingar ef þeir ynnu ekki áfram með Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni. Ekki yrði hikað við að leita aftur til öryggisráðsins ef Íranar sýndu ekki samstarfsvilja.

Ályktunartillögunni var breytt nokkrum sinnum vegna andmæla frá Rússum og Kínverjum og sagði fulltrúi Rússa í öryggisráðinu að ályktunin fæli ekki í sér leyfi til valdbeitingar gagnvart Írönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×