Innlent

Grunur um að starfsmenn Byrgis hafi getið vistkonum börn

Grunur leikur á að fleiri en ein kona í meðferð í Byrginu hafi orðið barnshafandi eftir starfsmenn þar. Kona kærði í dag Guðmund Jónsson forstöðumann fyrir kynferðisbrot. Þrjár að auki hafa haft samband við lögreglu vegna tengsla sinna við Guðmund. Formaður Samfylkingarinnar vill opinbera rannsókn á starfsemi Byrgisins.

Á heimasíðu Byrgisins eru birtar ítarlegar húsreglur og sú sjötta segir að fólk í Byrginu séu systkini í Kristi. Orðrétt segir: "Dragi þau sig saman til kynlífsathafna, fá þau frá hvort öðru rautt spjald, sem þýðir "Úr leik'' og víkja frá Byrginu strax. ( Phorno dogs.)"

Kynlíf milli fólks er því brottrekstrarsök. Þó herma heimildir fréttastofu að fyrir utan ásakanir á hendur forstöðumanninum um kynferðismök með skjólstæðingum sínum þá hafi fleiri en ein kona í meðferð orðið barnshafandi eftir starfsmenn á Byrginu.

Ólöf Ósk Erlendsdóttir sem sagði sögu sína í Íslandi í dag í gær kærði í dag Guðmund Jónsson forstöðumann til lögreglu fyrir kynferðisbrot. Í fjögurra klukkustunda skýrslutöku lagði hún fram öll sín gögn, bréf, myndefni, ljóð og SMS sem hún segir sannanir fyrir kynferðislegu sambandi þeirra. Hún mun síðar einnig kæra hann fyrir fjársvik en hún sakar hann um að hafa stungið í eigin vasa á fjórðu milljón króna sem hún fékk í bætur eftir bílslys.

Að sögn Steinunnar Guðbjartsdóttur réttargæslumanns Ólafar eru tvær greinar hegningarlaga sem koma til álita í kærunni. Annars vegar að ef starfsmaður í fangelsi, vistheimili eða annarri slíkri stofnun hefur samræði við vistmann varði það fangelsi allt að fjórum árum.

Og hins vegar grein þar sem segir meðal annars að hver sem hefur samræði við mann með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að hann er honum háður sem skjólstæðingur í trúnaðarsambandi skal sæta fangelsi allt að þremur árum.

Steinunn segir að sjálfeignastofnanir á borð við Byrgið geti ekki verið undanskyldar þessum ákvæðum.

Rétt fyrir klukkan fjögur í dag bárust svo félagsmálaráðuneytinu svör frá stjórn Byrgisins við sjö spurningum ráðuneytisins. Í spurningum er meðal annars leitað eftir upplýsingum um hver hafi faglegt eftirlit með starfsemi Byrgisins. Farið verður yfir svörin strax milli jóla og nýárs.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar segir nauðsynlegt að fram fari opinber rannsókn á starfsemi Byrgisins. "Og eins hvernig á því stendur að stofnun fær ár eftir ár veruleg fjárframlög á fjárlögum án þess að það sé haft faglegt og rekstrarlegt eftirlit með þeirri starfsemi sem þarna fer fram."

Þá hefur lögmaður Byrgisins lagt fram kæru á hendur ábyrgðarmönnum fréttaskýringaþáttarins Kompáss fyrir brot gegn Guðmundi Jónssyni forstöðumanni og fyrir að hafa útvegað viðmælendum contalgin. Í samtali við fréttastofu sagðist lögmaður Byrgisins ekki vilja skýra nánar frá efni kærunnar enda sé það lögreglunnar að kynna kærðum aðilum það sem þeim er gefið að sök. Slíkt verði ekki gert í fjölmiðlum.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×