Erlent

Hermenn ákærðir fyrir morð á 24 borgurum í Írak

Átta bandarískir hermenn voru í gær ákærðir fyrir að hafa myrt 24 Íraka í þorpinu Haditha í Írak í nóvember á nýliðnu ári, þar af sex börn á aldrinum tveggja til 11 ára. Sveitarforinginn, Justin Sharratt, á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Hann er ákærður fyrir að hafa sjálfur myrt 12 manns og að hafa skipað hermönnum undir hans stjórn að myrða 6 til viðbótar. Hinir sjö hljóta misþungar ákærur, allt frá því ákærum fyrir að tefja rannsókn málsins með röngum vitnisburði upp í meðábyrgð fyrir morð á 12 mönnum. Þetta er ein stærsta glæparannsóknin vegna morða bandarískra hermanna á saklausum borgurum í Írak. Írösk vitni segja að hermennirnir hafi gengið berserksgang eftir að einn úr þeirra hópi lét lífið í sprengjuárás.

Fljótlega eftir að ákærurnar voru lesnar upp í gærkvöldi, sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hinar miklu fórnir Bandaríkjamanna í Írak myndu borga sig á endanum, af því að friður í Írak myndi gjörbreyta ásýnd Mið-Austurlanda. Robert Gates, sem tók við embætti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna á mánudaginn, var hins vegar ekki svo kokhraustur eftir þriggja daga heimsókn hans í Írak, og vildi ekkert gefa upp á blaðamannafundi í Bagdad í dag, hvað hann hyggðist ráðleggja Bush forseta, eða hvort honum litist á hugmyndir forsetans, um að auka tímabundið herafla í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×