Erlent

Ólga um nýjan ráðherra í Danmörku

Sama dag og Carina Christensen er skipuð í embætti neytendaráðherra í Danmörku í stað Lars Barfoeds, sem sagði af sér á miðvikudaginn, er búið að ata hana auri í dönsku blöðunum. Vinnueftirlitið hefur gert athugasemdir við húsgagnaverksmiðju sem hún rekur og samkeppnisaðili hefur stefnt fyrirtækinu fyrir iðnstuld.

Carina á húsgagnaverksmiðjuna Rugballe á Fjóni en vinnueftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við vinnuaðstöðuna þar og hefur meðal annars merkt verksmiðjuna í skýrslum sínum með gulum broskalli, sem gildir sem viðvörunarljós.

Auk þessa er kærumál samkeppnisaðila verksmiðjunnar á leið fyrir hæstarétt, þar sem samkeppnisaðilinn heldur því fram að verksmiðja ráðherrans nýja hafi framleitt og selt húsgögn eftir hönnun hinnar verksmiðjunnar í leyfisleysi og banni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×