Erlent

Nýjar rannsóknir á dauða Díönu en sama niðurstaða

DNA rannsókn hefur leitt í ljós að Henri Paul, ökumaður Díönu prinsessu, var ölvaður hina örlagaríku nótt París 1997 þegar hann ók á steinstólpa og Díana lést. Þetta kemur fram í heimildarmynd BBC sjónvarpsstöðvarinnar. Ættingjar Pauls fengu því framgengt að ný rannsókn yrði gerð á blóðsýnum úr honum, vegna þess að þeir töldu hann hafa verið allsgáðan og að sýnum hefði hugsanlega verið ruglað af misgáningi eða jafnvel af ásettu ráði. Heimildarmyndin verður sýnd á morgun á BBC og þar kemur fram að franska lögreglan lét gera aðra rannsókn á blóðinu fyrr á þessu ári.

Tveggja ára rannsókn franskra yfirvalda komst að þeirri niðurstöðu að Paul hefði verið um að kenna vegna þess að hann hafi verið undir áhrifum bæði áfengis og þunglyndislyfja og ekið of hratt. Búist er við að þriggja ára rannsókn, sem John Stevens, fyrrverandi lögreglustjóri Lundúna stýrir, komist að sömu niðurstöðu innan skamms. Engu að síður byrja í Englandi í næsta mánuði vitnaleiðslur fyrir opnum tjöldum um dauða Díönu og vinar hennar Dodi al Fayed. Faðir Dodi, Mohamed al Fayed, hefur barist fyrir því að þær verði haldnar, vegna þess að hann hefur aldrei fallist á opinberar útsýringar á slysinu og gefið í skyn að parið hafi verið myrt vegna þess að samband þeirra hafi verið bresku krúnunni til óþæginda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×