Erlent

Ný fréttastöð, France 24, komin í loftið

Jaques Chirac, Frakklandsforseti, er einn þeirra sem styður stöðina. Merki sjónvarpsstöðvarinnar er í bakgrunni.
Jaques Chirac, Frakklandsforseti, er einn þeirra sem styður stöðina. Merki sjónvarpsstöðvarinnar er í bakgrunni. MYND/AP

Fyrsta alþjóðlega fréttastöðin sem sjónvarpar á frönsku og ensku fór í loftið í kvöld undir nafninu France 24. Stöðin keppir um markaðshlutdeild við BBC World og CNN. Stöðin hóf útsendingar á netinu í kvöld og sjónvarpsútsendingar um gervihnött og kapal hefjast á sama tíma annað kvöld.

Einn þeirra sem gleðst yfir nýju stöðinni er Jaques Chirac, Frakklandsforseti enda hefur hann kvartað sárlega yfir skilningsleysi á sjónarmiðum Frakka, sérstaklega í aðdraganda stríðsins í Írak.

Gagnrýnendur stöðvarinnar hafa bent á að hún eigi ekki eftir að geta staðið jafnfætis stöðvum eins og CNN, meðan fjárhagur hennar og velta eru ekki nema tæplega 10% af því sem CNN hefur úr að moða.

Stöðin hefur ráðið 170 fréttamenn sem munu skiptast jafnt á milli ensku og frönsku deildar sjónvarpsstöðvarinnar, en sjónvarpað verður á báðum þessum tungumálum frá byrjun og ætlunin er að bæta við útsendingum á spænsku og arabísku ef allt gengur í haginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×