Erlent

Biður stuðningsmenn Hisbollah að vera reiðubúna til mótmæla

Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah, nýtur gríðarlegra vinsælda.
Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah, nýtur gríðarlegra vinsælda. MYND/AP
Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah, sagði í dag stuðningsmönnum að vera reiðubúnir til þess að mæta í friðsamleg mótmæli á götum úti til þess að krefjast nýrrar ríkisstjórnar í stað núverandi ríkisstjórnar, sem hann og stjórnmálamenn úr fleiri fylkingum segja að samræmist ekki stjórnarskrá. Þetta kemur fram í líbanska blaðinu Daily Star.

"Við í stjórnarandstöðunni verðum öll að vera reiðubúin, ekki síst andlega, til að fara út á göturnar. Við gætum kallað eftir ykkur með 24 tíma fyrirvara, eða 12 stunda fyrirvara, eða hvenær sem er, fyrirvaralaust," sagði hann í sjónvarpsávarpi sem sýnt var á Al-Manar sjónvarpsstöðinni, sem er áróðurssjónvarpsstöð Hisbollah.

Nasrallah sagðist þó ekki myndu kalla til mótmæla án þess að ráðfæra sig við stjórnmálafylkingar sem styðja Hisbollah.

Hisbollah, og fleiri stjórnarandstöðuflokkar, segja ríkisstjórnina ólögmæta og óstarfhæfa eftir að allir ráðherrar sjíamúslima auk eins kristins ráðherra, sögðu sig úr stjórninni um síðustu helgi. Stjórnarskrá Líbanons kveður sérstaklega á um skiptingu valds á milli mismunandi trúarhópa, þannig skulu allir hópar eiga fulltrúa á þinginu, sem og í ríkisstjórn. Með því að segja sig úr ríkisstjórninni með samstilltu átaki, geta ráðherrar sjíamúslima því lamað ríkisstjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×