Erlent

Marokkómaður átti verðlaunaskopmynd í helfararkeppni

Verðlaunahafarnir, ásamt menntamálaráðherra Írans. Myndin er af vef Íranska teiknimyndahússins, þar sem verðlaunamyndirnar eru til sýnis.
Verðlaunahafarnir, ásamt menntamálaráðherra Írans. Myndin er af vef Íranska teiknimyndahússins, þar sem verðlaunamyndirnar eru til sýnis. MYND/www.irancartoon.com
Marokkómaðurinn Abdellah Derkaoui fór með sigur af hólmi í teiknimyndasamkeppni íranska dagblaðsins Hamshahri um bestu helfararskopmyndina. Að sögn skipuleggjenda keppninnar bárust 1.193 myndir í keppnina frá 63 löndum. Abdellah fékk í sigurlaun ríflega 800 þúsund íslenskra króna en Frakki og Brasilíumaður skiptu með sér 540 þúsundum fyrir annað sætið.

Menntamálaráðherra Írans og ráðherra íslamskrar ráðgjafar, Mohammad Hossein Saffar-Harandi, sagðist ekki myndu geta nafns Frakkans sem varð í öðru sæti, því hann gæti átt von á að vera dæmdur í fangelsi ef upp kæmist.

Verðlaunamyndin sýnir byggingarkrana merktan Davíðsstjörnunni raða múrsteinum í vegg í kringum einn helgasta stað múslima í Jerúsalem til að aðskilja hann frá borginni. Á veggnum er hlið sem sést í fjarlægð og líkist hliðinu að Auschwitz-fangabúðunum alræmdu. Að sögn fréttaritara AP í Teheran voru skilaboð skopmyndanna ekki alltaf augljós en á þó nokkrum þeirra væri hent gaman að Bandaríkjunum, sem ásamt Ísrael eru erkióvinur Írans.

Hamshahri er mest lesna dagblað í Íran og efndi til keppninnar í febrúar, í kjölfar mikillar reiði vegna skopmynda af Múhameð spámanni sem birtust í danska blaðinu Jyllandsposten, eins og frægt er orðið.

Verðlaunamyndina er hægt að sjá á vef Íranska teiknimyndahússins, sem heldur keppnina í samvinnu við Hamshahri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×