Innlent

Fornt akkeri á þurrt

Fornleifafræðingum á vegum Hólarannsóknarinnar tókst í dag að losa af hafsbotni við Kolkuós í Skagafirði fornt akkeri sem er talið staðfesta kenninguna um skipalægi suður af Elínarhólma. Talið er að Kolkuós hafi verið ein meginhöfn Norðlendinga á öldum áður og Elínarhólmi landfastur og því heppilegur til uppskipunar.

Fornleifarannsóknin við Kolkuós fer fram á vegum Hólarannsóknarinnar, sem hefur m.a. að markmiði að kanna veldi biskupsstólsins á Hólum á hverjum tíma og tengsl hans við næsta umhverfi sitt og útlönd. Ummerki um líflega milliríkjaverslun og starfsemi við fjörukambinn hafa fundist á tanganum við Kolkuós, en þessa dagana beinist athyglin helst að botni sjávar. Talið er líklegt að þar megi finna fornminjar eins og það akkeri, sem kafarar færðu í land í dag og verður nánar rannsakað, t.a.m. með gegnumlýsingu, í því skyni að greina aldur þess.

Ragnheiður Traustadóttir, stjórnandi Hólarannsóknarinnar, segir að akkerið sé úr smíðajárni og geti verið allt frá víkingaöld til 18. aldar. Frekari greining eigi hins vegar að afmarka aldurinn nánar.

Ragnheiður segist enn fremur telja að sérfræðingar rannsóknarinnar hafi komið niður á annað kuml á staðnum, sem verði grafið fram á næstu dögum, en í hinu fyrra hafði svín verið lagt með manninum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.