Innlent

Ægisdyr vilja frekari rannsóknir á jarðgöngum til Vestmannaeyja

MYND/Gunnar V. Andrésson

Ný skýrsla á vegum Ægisdyra metur kostnað við göng milli lands og Eyja tugum milljörðum lægra en nefnd samgönguráðuneytisins. Formaður Ægisdyra vill að jarðgöngum verði haldið uppi á borðinu þar til frekari rannsóknir hafa verið framkvæmdar.

Forsvarsmenn Ægisdyra, félags áhugamanna um jarðgöng milli lands og Eyja, kynntu í gær nýja skýrslu um jarðgöng til Vestmannaeyja. Skýrslan var unnin fyrir Ægisdyr af ráðgjafarfyrirtækinu Multiconsult. Kostnaður við jarðgöngin er metinn á rúmlega átján milljarða auk rannsóknarkostnaðar. Nefnd á vegum samgönguráðuneytisins vann skýrslu að beiðni Vegagerðarinnar upp úr sömu rannsóknum en mat kostnaðinn mun meiri eða um 70 milljarða króna.

Ingi Sigurðsson, formaður Ægisdyra, segir fyrri skýrsluna hafa túlkað rannsóknirnar á versta veg. Í skýrslu Ægisdyra komi fram að frekari rannsókna sé þörf en ef ekkert stórvægilegt komi upp á sé kostnaðurinn þetta lítill.

Eftir að nefnd samgönguráðuneytisins lauk störfum á dögunum kynnti Sturla ríkisstjórninni að starfshópur myndi vinna að undirbúningi hafnargerðar við Bakkafjöru og leita að ákjósanlegri ferju.

Ægisdyr krefjast þess nú að samgönguráðuneytið og bæjarstjórn í Vestmannaeyjum taki höndum saman og klári þær rannsóknir sem þarf til að meta möguleikana á göngum til Vestmannaeyja. Bora þurfi í landgrunninn við Heimaey og við land til að meta hversu dýr borunin muni verða. Þessar rannsóknir eigi að gera um leið og rannsóknir varðandi Bakkafjöru fara fram.

Samgönguráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna skýrslu Ægisdyra þar sem tekið er fram að samgönguráðuneytið vinni að framtíðarlausnum í samgöngumálum Vestmannaeyja. Skýrsla Ægisdyra verði skoðuð en vinna við hafnargerð í Bakkafjöru mun halda áfram.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.