Innlent

Sakar stjórnarandstöðu um verðbólguna

Stjórnarandstæðingar sökuðu stjórnarliða um að flýja af hólmi fyrir sveitarstjórnarkosningar og forðast að ræða efnahagsmál. Þingmaður Framsóknarflokksins svaraði með því að segja að stjórnarandstaðan hefði talað upp verðbólguna.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, hóf umræðuna og gagnrýndi að forsætisráðherra hefði ekki fengist utandagskrárumræðu um efnahagsmálin. Hann sagði stjórnina hafa lagt á flótta undan umræðu um frammistöðu sína með því að fresta þingfundum. Það sagði hann að væri gert vegna komandi sveitarstjórnarkosninga.

Steingrímur sagði það ekki passa við dýran kosningaáróður stjórnarflokkanna og þá ímynd sem þeir létu auglýsingastofur hanna fyrir sig að fjallað væri um frammistöðu þeirra.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna, var engu sáttari. Hann átaldi stjórnarmeirihlutann harðlega fyrir að ekki yrðu eldhúsdagsumræður í kvöld eins og hafði verið stefnt að. "Hvílík framkoma."

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, minnti menn á jákvæða umsögn bandaríska hagfræðingsins Roberts Mishkins um íslenskt efnahagslíf. Hann bætti við að Miskhin hefði sagt að það væri hægt að upp verðbólguna og velti því fyrir sér hvort allt tal stjórnarandstöðunnar um slæmt efnahagsástand væri ekki farið að skila sér í aukinni verðbólgu.

Þetta þótti Margréti Frímannsdóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, ómaklegt. Henni fannst þó sem þetta skilningsleysi stjórnarþingmanna á efnahagsmálum kynni að skýra hvers vegna staða efnahagsmála væri jafn slæmt og raun bæri vitni.

Halldór Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, furðaði sig á því hversu miklu stjórnarandstæðingar vildu ráða um hvaða mál væru tekin fyrir og hver ekki. Hann sagði það merkilegt að þegar stjórnarandstæðingar vildu ráða hvaða mál væru tekin á dagskrá kölluðu þeir það samstarfsvilja. Þegar stjórnarliðar vildu hafa eitthvað um það að segja kölluðu stjórnarandstæðingar það hins vegar frekju.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×