Gísli S. Einarsson hefur ákveðið að biðjast lausnar undan skyldum sínum sem varaþingmaður Samfylkingarinnar. Gísli þáði á dögunum boð Sjálfstæðismanna á Akranesi um að verða bæjarstjóraefni þeirra í sveitarstjórnarkosningunum í næsta mánuði.
Gísli var þingmaður Alþýðuflokksins og síðar Samfylkingarinnar um tíu ára skeið og hefur verið varaþingmaður flokksins frá síðustu kosningum. Gísli sagðist fyrr í dag hafa ritað bréf þar sem hann biðst lausnar en hafði þá ekki enn komist á pósthús til að senda það.