Innlent

Fasteignagjöld hafa hækkað um allt að 64 prósent

Fasteignagjöld hafa hækkað mest í Reykjanesbæ.
Fasteignagjöld hafa hækkað mest í Reykjanesbæ.
Álögur stærstu sveitarfélaga landsins á íbúðarhúsnæði hafa hækkað langt umfram almennar verðlagsbreytingar síðustu þrjú árin segir í nýrri skýrslu ASÍ. Þetta gerist þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna að um að álagningarprósenta fasteignagjalda lækki vegna hækkunar fasteignamats.

Fasteignagjöld íbúa á suðvesturhorni landsins hafa hækkað um allt að 64 prósent frá árinu 2003 samkvæmt útreikningum Alþýðusambands Íslands. Ástæðan er sú að fasteignamat íbúðanna hefur hækkað mjög mikið á þessu tímabili eða um allt að 110 prósent.

Sveitarstjórnir í öllum sveitarfélögunum lækkuðu álagningarprósentu fasteignagjalda við gerð síðustu fjárhagsáætlunar sinnar til að koma í veg fyrir hækkun gjalda. Það gerðu nokkur sveitarfélög líka árið á undan því. Ekki var hins vegar komið til móts við hækkun fasteignamats með þessum hætti á fyrri árum og veldur það mikilli hækkun.

Samkvæmt útreikningum ASÍ hefur fasteignagjald hækkað mest hjá íbúum Reykjanesbæjar, eða um rúm 60 prósent, en minnst hjá íbúum Kópavogs, um fimmtán til tuttugu prósent. Miðað við spár um fjögurra prósenta verðbólgu á þessu ári verður verðbólga á tímabilinu sem um ræðir ellefu prósent, eða langtum minni en hækkun fasteignagjalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×