Innlent

Dýrast í Garðabæ

Frá Garðabæ.
Frá Garðabæ. MYND/LHG

Garðabær er dýrasta sveitarfélag landsins þegar kemur að því að fá leikskólavist og skóladagvist fyrir börn. Skiptir þá engu hvort um er að ræða hjón eða einstætt foreldri. Þetta kemur fram í nýrri verðlagskönnun Alþýðusambands Íslands.

Í könnuninni var sett upp dæmi af annars vegar hjónum með tvö börn, fjögurra og sjö ára, og hins vegar einstæðu foreldri með jafngömul börn. Athugað var hversu mikið það kostar að fá leikskólapláss fyrir yngra barnið og skóladagvist fyrir það eldra auk hádegismats.

Niðurstaðan var sú að Garðabær trónir á toppnum í báðum flokkum. Þar kostar það 470 þúsund krónur árlega fyrir hjón að fá leikskóla- og skóladagvist fyrir börnin en ódýrast er það á Akureyri, kostar 331 þúsund krónur. Munurinn er 42 prósent.

Munurinn milli dýrasta og ódýrasta sveitarfélagsins er enn meiri þegar kemur að útgjöldum einstæðra foreldra. Garðabær rukkar 384 þúsund krónur árlega fyrir leikskóla- og skóladagvist barna einstæða foreldrisins en Reykjavík 256 þúsund krónur. Munurinn þar nemur fimmtíu prósentum eða helmingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×