Innlent

L-listinn í Skeiða og Gnúpverjahreppi leysist upp

L-listinn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, listi áhugafólks um farsæla sameiningu, býður ekki fram í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þetta kemur fram á fréttavef Suðurlands, sudurland.net. L-listinn fékk hreinan meirihluta í síðustu sveitarstjórnarkosningum, fékk fjóra fulltrúa en A-listi framfarasinna fékk 3. Langvinn deila um skólamál í hreppnum er ein aðalskýring þessarar ákvörðunar fulltrúa L-listans.

Samkvæmt frétt í Glugganum, héraðsfréttablaði á Selfossi, hefur Aðalsteinn Guðmundsson oddviti og leiðtogi L- listans í Skeiða og Gnúpverjahreppi ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í hreppsnefnd.

Fréttavefur Suðurlands, sudurland.net hefur eftir Matthildi E. Vilhjálmsdóttur, Hrafnhildi Ágústsdóttur, og Tryggva Steinarssyni, sem öll skipa sæti L- listans í hreppsnefnd Skeiða og Gnúpverjahrepps, að þau hyggist einnig draga sig í hlé frá hreppsnefndarstörfum að loknu þessu kjörtímabili.

Hrafnhildur Ágústsdóttir, sem hefur starfað í hreppsnefnd 12 ár, segir í viðtali við sudurland.net að ástæður þess að hún gefi ekki kost á sér til áframhaldandi setu séu persónulegar. Jafnframt segir Hranfhildur að skólamálin hafi valdið hatrömmum og langvinnum deilum í hreppnum, sem skipt hafi íbúum í tvær andstæðar fylkingar. Það sé illt í svo litlu samfélagi.

Tryggvi Steinsson vildi ekki tilgreina ástæðu fyrir afstöðu sinni en tók undir að deila sveitunganna um skólamálin væri vond deila í litlu en annars góðu samfélagi. Hann taldi sig leggja þann skilning í afstöðu annarra á listanum, þ.m.t. varamanna L- listans, að þeir hyggðust ekki halda þessari baráttu áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×