Erlent

Kínverji fékk nýtt andlit

Önnur andlitságræðsla sögunnar fór fram í Kína í gær. Aðgerðin, sem tók meira en hálfan sólarhring, heppnaðist með ágætum. Aðgerðin er sú fyrsta sinnar tegundar í Kína. Hinn þrítugi Li Guoxing, var að veiðum í suðvesturhluta Kína fyrir tveimur árum, þegar bjarndýr réðist á hann. Hann komst naumlega lífs af, en björninn klóraði andlitið á honum nánast af. Í aðgerðinni í gær var skipt um kinn, efri vör, nef og augabrún og efniviðurinn kom allur frá sama andlitsgjafanum, en ekki hafa verið gefnar upp neinar upplýsingar um hann. Í yfirlýsingu frá læknunum segir að sjúklingurinn sé í góðu ástandi og aðgerðin hafi að öllu leyti heppnast með ágætum. Hún hafi verið afar vandasöm og tekið meira en hálfan sólarhring, en vonast sé til að maðurinn verði að fullu búinn að ná sér eftir aðgerðina innan viku.

Kína er aðeins annað landið í heiminum þar sem andlit er grætt á mann. Fyrir hálfu ári græddu læknar í Amiens í fyrsta sinn andlit á konu, sem hafði einmitt líka orðið fyrir árás frá dýri, en í því tilfelli var það hundur sem gerði konuna óþekkjanlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×