Innlent

400 milljóna rekstrafgangur

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár gerir ráð fyrir tæplega 400 milljóna króna rekstrarafgangi en áætlunin var tekin til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri segir vöxt og grósku hafa sett mark á bæjarbraginn á Akureyri undanfarin ár og svo verði áfram.

Samkvæmt fjárhagsáætluninni verða heildartekjur bæjarins á næsta ári tæpir 10,7 milljarðar króna en heildargjöld um 10,3 milljarðar króna. Tekjuaukningin frá árinu í ár verður um 630 milljónir króna en gert er ráð fyrir að útgjöldin aukist heldur minna eða um 580 milljónir króna.

Kristján Þór segir að áætlunin geri ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins en framkvæmt verður í A-hluta fyrir tæpan 1,2 milljarð króna.

"Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er mjög sterk og við gerum ráð fyrir að íbúum bæjarins fjölgi áfram en það sem af er þessu ári hefur þeim fjölgað um 257. Útsvarsprósentan mun ekki hækka á næsta ári og leikskólagjöld ekki heldur en við reiknum með að álagningarprósentan vegna fasteignagjalda lækki nokkuð en of snemmt er að segja til um hversu mikil lækkunin verður," segir Kristján Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×