Erlent

Sprengingar skelfa Lundúnabúa

Sprengingar urðu í jarðlestum og strætisvagni í Lundúnum um hádegisbil í gær, en þær voru mun minni en þær sem bönuðu 56 manns fyrir hálfum mánuði. Aðeins einn maður særðist í sprengingunum í gær, að því er fregnir hermdu. Lögreglustjóri borgarinnar sagði að mikið af sönnunargögnum hefðu fundist sem líkleg væru til að vísa lögreglunni á þá sem að tilræðunum stóðu. Sprengingarnar urðu nærri samtímis í þremur jarðlestum og einum strætisvagni, sú fyrsta klukkan 12:38 að staðartíma og hinar innan næsta hálftíma. Þeim svipaði þannig mjög til mannskæðu sjálfsmorðssprengjutilræðanna 7. júlí, nema hvað aflið í sprengingunum var að þessu sinni mun minna en þá. Eins og gefur að skilja voru Lundúnabúar slegnir en borgarlífið var þó fljótt að komast aftur í sinn vanagang. Sir Ian Blair, lögreglustjóri Lundúna, vildi ekki segja af eða á um það hvort einhver hefði verið handtekinn vegna málsins strax í gær. En hann sagði augsýnilegt að tilgangur tilræðismannanna hefði verið að valda dauðsföllum. Hann sagði ennfremur að ekki væri ljóst hvort nokkur bein tengsl væru milli þessara nýjustu og 7. júlí-tilræðanna. Fólk sem var statt í jarðlestarstöðvunum þremur, Warren Street, Oval og Shepherd's Bush, flúði þaðan í skelfingu er sprengingarnar urðu. Lögregla girti stöðvarnar og nágrenni þeirra af og umferð stöðvaðist um þær þrjár jarðlestaleiðir sem lágu um þessar stöðvar. Sprengingin í strætisvagninum varð á Hackney Road í austurhluta borgarinnar, en hún þeytti rúðum úr honum. Vopnuð lögreglusveit stormaði inn í University College-sjúkrahúsið, sem er rétt við Warren Street-stöðina, skömmu eftir að særður maður var borinn þangað inn. Sky-fréttasjónvarpsstöðin sagði frá því að lögreglan leitaði manns í blárri skyrtu sem vírar hefðu sést standa út úr. Sérfræðingar í hryðjuverkamálum voru hikandi við að fullyrða að tengsl væru milli hryðjuverkanna nú og fyrir hálfum mánuði. Að sögn AP-fréttastofunnar segja sumir að hermikrákur gætu hafa verið að verki í gær, en aðrir að hópur tengdur þeim sem framdi fyrra hryðjuverkið bæri ábyrgð á þessu nýjasta.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×