Erlent

Ásakanir um andvaraleysi MI5

Vangaveltur um hvort bresk yfirvöld hefðu sofið á verðinum færðust í aukana í gær, eftir að sagt var frá því í fjölmiðlum að innanríkisleyniþjónustan MI5 hefði tekið til athugunar að minnsta kosti einn mannanna fjögurra sem frömdu sprengjutilræðin í London þann 7. júlí. Liðsmenn MI5 eru sagðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að Mohammed Sidique Khan ógnaði ekki þjóðaröryggi og ákváðu að láta ekki fylgjast með honum. Leyniþjónustan beindi sjónum að Khan í tengslum við rannsókn á meintum áformum um að sprengja bílsprengju í Lundúnum. Þá var einnig sagt frá því að bandaríska leyniþjónustan hefði bent breskum bandamönnum sínum á að Germaine Lindsay, sem var fæddur á Jamaíku, væri á eftirlitslista yfir hugsanlega hryðjuverkamenn, en MI5 hafi ákveðið að láta ekki fylgjast með honum. Talsmaður innanríkisráðuneytisins, sem svarar fyrir MI5, neitaði að láta hafa neitt eftir sér um orðróm þess efnis að leyniþjónustan hefði látið hjá líða að nýta mikilvægar vísbendingar sem henni bárust. Né heldur vildu þeir tjá sig um þann orðróm að Breti af pakistönskum uppruna, grunaður um tengsl við al-Kaída, hefði komið til landsins tveimur til þremur vikum fyrir tilræðin í London, og farið úr landi daginn áður en þau voru framin. Komið hefur fram að þrír af sprengjumönnunum fjórum höfðu nýlega farið til Pakistans. Staðfest dauðsföll af völdum tilræðanna eru nú komin í 56.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×