Erlent

Deilt um sekt efnafræðingsins

Deilt er um hvort maðurinn sem handtekinn var í Kaíró í gær sé einn skipuleggjenda hryðjuverkanna í London. Lögreglan í Bretlandi telur að svo sé en innanríkisráðherra Egyptalands segir það af og frá. Egypski efnafræðingurinn sem handtekinn var í Kaíró í gær í tengslum við árásirnar í London í síðustu viku tengdist ekki hryðjuverkasamtökunum Al-Qaida og átti ekki þátt í skipulagningu hryðjuverkaárásanna í London í síðustu viku. Þetta segir innanríkisráðherra Egyptalands í samtali við egypskt dagblað í dag. Maðurinn kenndi efnafræði við háskólann í Leeds þar til viku fyrir árásirnar að hann sneri heim til Egyptalands. Hann var síðan handtekinn fyrir fimm dögum í Kaíró eftir að breskir embættismenn gáfu egypskum yfirvöldum upp nafn hans. Maðurinn neitar að hafa átt þátt í árásunum. Ekki er ljóst hvort maðurinn verði framseldur til Bretlands en nágrannar mannsins þar í landi segja óhugsandi að hann hefði getað framkvæmt verknaðinn, hann hefði verið ekkert annað en viðkunnalegur og þægilegur sem alla líkaði við. Bresk yfirvöld segja að heima hjá honum hafi fundist efni sem auðveldlega væri hægt að breyta í öflug sprengiefni. Lögreglan hefur gert að minnsta kosti sex húsleitir í Leeds í vikunni vegna málsins. Fjöldi þeirra sem látist hafa vegna árásanna í Lundúnum þann 7. júlí síðastliðinn er nú kominn upp í 55 eftir að enn eitt fórnarlamb árásanna lést á sjúkrahúsi í nótt. Ekki hefur verið gefið upp hver hinna fjögurra sprenginga varð viðkomandi að bana, né heldur aðrar upplýsingar um hinn látna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×