Erlent

Þúsundir minntust fórnarlambanna

Þúsundir manna komu saman við Trafalgar-torg í London í gærkvöld til að minnast þeirra sem létu lífið í sprengingunum í London í síðustu viku en tala látinna er nú komin í fimmtíu og fjóra. Lögreglan segir að enn megi búast við að tala látinna muni hækka. Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúnaborgar, sagði í ræðu sem hann hélt að markmið hryðjuverkamannanna væri að fá fólk upp á móti hverju öðru. Þeim skyldi þó mistakast ætlunarverk sitt. Hann hamraði á umburðarlyndi og að allir, jafnt kristnir sem múslímar, stæðu saman gegn hryðjuverkaógninni. Samtök múslíma í Bandaríkjunum hafa hafið einskonar markaðsherferð undir nafninu "Ekki í nafni íslam". Markmiðið er að bæta ímynd múslíma í landinu en þeir hafa þar í landi, líkt og á Bretlandi, verið áreittir eftir sprengjuárásirnar í London. Formaður samtakanna sagði í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér að það væri kristaltært að samtökin fordæmdu allar hryðjuverkaárásir sem gerðar væru. Hann sagði íslam ekki snúast um hatur eða ofbeldi heldur frið og réttlæti og að íslam samþykki ekki hryðjuverk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×