Erlent

Árásirnar afar vel skipulagðar

Óttast er að allt að 75 hafi týnt lífi í hryðjuverkunum London. Enn hefur ekki tekist að ná öllum líkum úr lestarvögnunum og á meðan leita grátandi ættingjar að þeim sem saknað er. Flest bendir til að árásirnar hafi verið vel skipulagðar en þær voru gerðar nánast samtímis á þremur stöðum.  Brynhildur Ólafsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2 var í London og hún segir rannsóknina á hryðjuverkunum eina þá viðamestu sem lögreglan í Lundúnum hefur staðið frammi fyrir. Í  ljós er að koma að árasirnar vor afar vel skipulagðar. Á blaðamannfundi í dag voru sýndar myndir sem sanna að sprengjurnar þrjár sprungu svo til samtímis. Brian Paddick hjá Scotland Yard segir engan vara leika á  öðru en að sprengjurnar hafi sprungið með fárra sekúndna millibili klukkan 8:50 um morguninn. Á þessum tíma er umferð um neðanjarðalestarkerfið hvað mest. Vegna þess er talið líklegt að sprengjurnar sem voru gerðar úr ódýru plastsprengiefni hafi verið settar í gang með tímarofa. Öðru máli gegnir um sprengjuna sem sprakk í Tavistock torgi,  hún sprakk ekki fyrr en klukkutíma síðar og sjónarvottar hafa lýst grunsamlegum manni sem hljóp niður stiga strætisvagnsins um leið og sprengjan sprakk. Lögreglan hefur ekki útilokað að sú sprenging hafi verið sjálfmorðsárás. Rannsókn bendir þó til  þess að sprengjan sjálf hafi verið í poka en ekki límd við likama mannsins. Það gengur erfiðlega að komast að lestarvögnunum til að rannsaka þá nánar, gríðarlegur hiti er í göngunum og óttast er að úr þeim hrynji. Eftir að ljóst var að enginn er enn á lífi hefur lögreglan ekki viljað hætta lífi sinna manna til að fara um lestargöngin fyrr en víst er að öllu sé óhætt. Lögregla hefur staðfest að lík og líkamsleifar liggja enn í einum lestarvagnanna. Ekki er vitað hversu margir þetta eru, en ættingjar þeirra sem enn er saknað og líka þeir sem vilja votta samúð og virðingu sínu fara á Kings Cross lestarstöðina og leggja þar blóm. Að öðru leyti er allt að komast í samt horf í Lundúnum og fólk virðist staðráðið í að láta ekki þessa atburði breyta háttalagi sínu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×