Erlent

Stálinu stappað í þjóðina

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, stappaði stálinu í þjóð sína í gær og fullyrti að hún myndi hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum ekki láta buga sig. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hétu stuðningi sínum við ríkisstjórnina í þessum þrengingum. "Það er kaldhæðnislegt að þetta skyldi henda á deginum sem við hittumst og ræðum um hvernig útrýma megi fátæktinni í Afríku," sagði Tony Blair í ávarpi sínu frá heimili sínu að Downingstæti 10 í gær. Blair var á fundi helstu iðnríkja heims í Gleneagles í Skotlandi í gærmorgun þegar árásirnar í Lundúnum voru gerðar en hann ákvað fljótlega að sín væri frekar þörf í höfuðborginni hjá þjóð sinni. Síðdegis fundaði Blair með Cobra, neyðarnefnd ríkisstjórnarinnar og embættismanna, en síðan flutti hann sjónvarpsávarp sitt þar sem hann hét að hafa hendur í hári þeirra sem fyrir árásunum stóðu. Blair vék í ræðu sinni að því æðruleysi sem hann sagði Lundúnabúa hafa sýnt á þessum erfiðu tímum. "Það er með hryðjuverkum sem þessir illvirkjar kjósa að sýna þau gildi sem þeir aðhyllast. Því er rétt að á þessum tíma sýnum við þau gildi sem við viljum standa fyrir. Þeir reyna að slátra saklausu fólki til að fæla okkur frá því að gera þá hluti sem við kjósum. Þeim skal ekki og má ekki takast ætlunarverk sitt." Michael Howard og Charles Kennedy, leiðtogar íhaldsmanna og frjálslyndra, sendu báðir samúðarkveðjur sínar til fórnarlamba árásanna og lofuðu jafnframt hetjudáðir lögreglu, sjúkra- og slökkviliðs. Þeir lýstu ennfremur fullum stuðningi við stjórnina í málinu. Charles Kennedy sló aldrei þessu vant á svipaða strengi og George W. Bush í ræðu sinni. "Munurinn á þeim sem reyna að eyða og drepa og þeim sem eru að reyna að byggja til framtíðar [á G8-fundinum] gæti ekki verið meira sláandi. Hryðjuverkamennirnir mega ekki sigra." George Galloway, hinn umdeildi skoski þingmaður sagði í viðtali við BBC að árásirnar væru "fyrirlitlegar en ekki alveg ófyrirsjáanlegar."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×