Erlent

Útiloka ekki fleiri árásir

Almenningur verður að vera vel á verði, segja talsmenn lögregluyfirvalda í London, þar sem ekki sé ljóst hvort að hrinu hryðjuverkaárása í borginni sé lokið. Bandarísk yfirvöld hafa einnig ákveðið að hækka viðbúnaðarstigið þar í landi, þó aðeins fyrir lestarkerfi og neðanjarðarlestir. Flugsamgöngur verða eftir sem áður með sama hætti og venjulega. Enn ríkir nokkur óvissa um atburðarásina í morgun, bæði um tölu þeirra sem týndu lífi og fjölda sprengna. Reuters-fréttaþjónusta hefur heimildir fyrir því að fjörutíu og fimm hafi farist; staðfest tala frá Lundúnalögreglunni er þrjátíu og þrír. Slasaðir eru sagðir á bilinu hundrað og fimmtíu, sem eru alvarlega slasaðir, til eitt þúsund. Fjöldi sprengnanna er einnig á reiki en svo virðist sem sjö sprengjur hafi sprungið á fjórum stöðum: á milli Russel Square og King's Cross neðanjarðarlestarstöðvanna; á milli Moorgate, Aldgate og Liverpool Street stöðvanna; sú þriðja nærri Edgware Road og sú fjórða á Tavistock square þar sem sprengja sprakk í strætisvagni. Lundúnalögreglan segir óvíst hvort að sprengjan í strætisvagninum átti að springa þar eða hvort henni var ætlað að vera í neðanjarðarlest, eins og hinar sprengjurnar. Enginn vafi leiki lengur á því að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Áður óþekktur hópur, sem kallar sig "Leynihóp heilags stríðs al-Qaida í Evrópu", lýsti árásunum á hendur sér í yfirlýsingu sem birt var á íslamskri vefsíðu. Á henni segir meðal annars að Bretland brenni nú af ótta og skelfingu í norðri, suðri, austri og vestri. Þetta hefur ekki fengist staðfest og lögreglan segist hvorki hafa fengið viðvaranir né yfirlýsingar þar sem gengist er við tilræðunum.
MYND/AP
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×