Innlent

Valgerður ber alla ábyrgð

Ríkisendurskoðandi segir að Valgerður Sverrisdóttir sem viðskiptaráðherra beri alla ábyrgð á sölu Landsbankans og Búnaðarbankans sem átti sér stað árið 2002. Ábyrgðin varðandi sölu bankanna hvílir ekki á ráðherranefndinni heldur fagráðherra, í þessu tilfelli viðskiptaráðherra. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hæfi Halldórs Ásgrímssonar til þess að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins árið 2002, sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra kynnti á blaðamannafundi í gær. Ríkisendurskoðandi segir að ráðherranefndin hafi ekki nægilega skýra stjórnsýslulega stöðu og að lögformleg staða bæði ráðherranefndar og framkvæmdanefndar um einkavæðingu sé óljós. Hann segir enga ástæðu til að véfengja hæfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra til þess að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum vegna óbeinna eignatengsla hans við S-hópinn sem keypti Búnaðarbankann. Hagsmunir Halldórs og skyldmenna hans hafi verið smávægilegir. Á þessum tíma átti Halldór um 1,33 prósenta hlut í Skinney-Þinganesi, sem átti helmingshlut í Hesteyri sem var einn stærsti hluthafinn í Keri, sem var hluti af S-hópnum. Skyldmenni Halldórs áttu samtals um 25 prósenta hlut í Skinney-Þinganesi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir það orka mjög tvímælis að Ríkisendurskoðandi sé að úrskurða um hæfi Halldórs Ásgrímssonar. "Ríkisendurskoðandi segir sjálfur í skýrslunni að þarna sé um að ræða lögfræðilegt álitaefni sem löggjafinn hefur alls ekki ætlað Ríkisendurskoðun að leysa úr. Fyrst að löggjafinn hefur alls ekki ætlað Ríkisendurskoðanda að leysa úr þessu álitaefni, af hverju tekur hann þá það frumkvæði að gera það?" spyr Ingibjörg Sólrún. Hún segir að eðlilegt sé að aðrir aðilar en Ríkisendurskoðandi, svo sem prófessorar í stjórnarfarsrétti eða Umboðsmaður Alþingis, úrskurði um mál sem þetta. Valgerður Sverrisdóttir var ekki búin að kynna sér skýrslu Ríkisendurskoðanda í gærkvöldi og vildi því ekki tjá sig um málið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×