
Innlent
Stjórnarandstaðan á villigötum

Fréttir um að listi hinna staðföstu þjóða sé ekki lengur til undirstrikar á hvaða villigötum stjórnarandstaðan er í Íraksmálinu, að mati Sólveigar Pétursdóttur, formanns utanríkismálanefndar Alþingis. Hún segir stjórnarliða aldrei hafa efast um að rétt hafi verið staðið að ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak en Eiríkur Tómasson lagaprófessor sagði í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu haft fulla lagalega heimild til þess að taka einir þá ákvörðun að styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak. Sólveig segir enn fremur að hún sé sammála yfirlýsingu Eiríks enda sé hann sérfræðingur í stjórnskipunarrétti og deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands. Aðspurð hvaða áhrif hún telji að yfirlýsing Eiríks og sú frétt, að listi hinna staðföstu þjóða sé ekki lengur til, hafi á málflutning stjórnarandstöðunnar segir Sólveig að það sé ljóst að fréttirnar hafi engin áhrif á utanríkisstefnu Íslands en þær undirstriki á hvað villigötum stjórnarandstaðan hafi verið í sínum málflutningi í Íraksmálinu. Hún hafi hamast á málinu og nánast tekið það vikulega upp á Alþingi og hafi aðallega byggt á þeirri forsendu að Ísland skuli tekið af lista hinna staðföstu þjóða, sem sé ekki lengur til. Aðspurð hvort hún telji yfirlýsingu Eiríks Tómassonar hafa áhrif á umræðuna segist Sólveig svo vera, að minnsta kosti hafi hún áhrif á málflutning stjórnarandstöðunnar. Stjórnarliðar hafi aldrei efast um að rétt og eðlilega hafi verið staðið að málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hins vegar hafi fjarað undan rökum stjórnarandstæðinga.