Innlent

Minningarathöfn um QP-13

Blómsveigar voru lagðir á hafið norður af Horni í morgun til minningar um sjómenn sem fórust með skipalestinni QP-13 í júlí árið 1942. Það voru skipverjar á rússneska kafbátarleitarskipinu Levchenko sem minntust sjómannanna með táknrænum hætti. Athöfnin fór fram að frumkvæði Alexanders Rannikh, sendiherra Rússlands á Íslandi. Auk hasn voru viðstaddir stjórnarerindrekar Bandaríkjanna og Bretlands. Talið er að rúmlega 400 sjómenn hafi farist þegar skipalestin sigldi á tundurdufl skammt undan Hornströndum. Þeir sem létust voru frá Rússlandi, Kanada, Póllandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Lestin var að koma frá Rússlandi á leið til Bandaríkjanna með vörur í skiptum fyrir birgðir sem Rússar fengu frá bandamönnum. Þar á meðal voru flugvélar, skriðdrekar og matur sem hafði mikið að segja í baráttunni gegn Þjóðverjum. Til baka sendu þeir timbur loðfeldi og gull. Ferðalag skipsins hefur staðið í 45 daga og sjóliðarnir því ánægðir að fá að halda heim á leið. Það var svo í Neðstakaupstað við minjasafnið á Ísafirði sem rússneski sendiherrann afhjúpaði varanlegan minnisvarða um sjómennina.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.