Innlent

Nýja leiðakerfið óhagkvæmt

Nýtt leiðarkerfi Strætó er gisnara en hið eldra og miðstöð þess er enn langt frá landfræðilegri miðju höfuðborgarinnar segir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Hann óttast að nýja leiðarkerfið sé bæði óskilvirkara og óhagkvæmara en hið eldra.  Samgöngunefnd Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni nýtt leiðakerfi fyrir Strætó með atkvæðum borgarfulltrúa R-listans. Borgarfulltrúar D-lista sátu hins vegar hjá og gerðu athugasemdir við kerfið. Einn þeirra, Kjartan Magnússon, segir sameiningu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu almennt hið besta mál en hins vegar séu töluverðir ágallar á hinu nýja leiðarkerfi. Í fyrsta lagi sé miðstöð þess enn langt frá landfræðilegri miðju höfuðborgarinnar og í öðru lagi sé það gisnara en hið eldra. Kjartan segir að í mörgum tilvikum sé verið að lengja för farþega út á biðstöð og óttast D-listinn að það muni fækka strætisvagnafarþegum. Og Kjartan telur að kjörið hefði verið að staðsetja miðstöð hins nýja kerfis annars staðar en nú er, t.d. í nágrenni við Kringluna þaðan sem hægt sé að aka til alla hverfa borgarinnar á innan við tíu mínútum. Kjartan óttast að verið sé að taka skref aftur á bak. Hann segir líka ljóst að nýja kerfið verði dýrara en hið eldra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×